Steinbryggjan í Reykjavík

Mynd 1. Gamla steinbryggjan nýtur sín vel í nýjum ramma sem Landmótun hannaði utan um hana.

Þann 5. september s.l. afhjúpaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ljóðlínur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur á nýju torgi við gömlu steinbryggjuna í miðbæ Reykjavíkur en torgið var hannað á Landmótun. Torgið er á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis og fær nafn sitt frá bryggjunni sjálfri og heitir einfaldlega Steinbryggja. Ljóðlínurnar á torginu eru úr ljóðinu „Vetur“ sem fyrst birtist í bók Vilborgar Dvergliljur árið 1968. Vilborg var viðstödd  og við þetta ánægjulega tilefni ræddu skáldin Gerður Kristný og Sunna Dís Másdóttir um skáldskap Vilborgar og fluttu ljóð eftir hana. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir ljóðlínunum í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar og er Vilborg fyrsta skáldið sem heiðrað er með þessum hætti.  Á Steinbryggju geta vegfarendur nú sest á skáldabekk, skannað rafrænan kóða með snjallsíma og hlustað á Vilborgu sjálfa fara með ljóðið „Vetur“ og nokkur önnur ljóð auk þess sem hægt er að hlusta á sömu ljóð lesin á ensku.

 

Mynd 2. Sunna Dís Másdóttir skáld flytur tölu við ljóðlínur Vilborgar, mynd fengin að láni hjá Reykjavíkurborg.
Mynd3. Ljóðlínur Vilborgar.

Steinbryggjan var byggð árið 1884 og er fyrsta bryggjan í eigu Reykvíkinga og því merk í sögu borgarinnar. Fyrir þann tíma einkenndu trébryggjur strandlengjuna og voru þær allar í eigu kaupmanna. Steinbryggjan var fyrsti viðkomustaður margra gesta borgarinnar, svo sem þeirra Friðriks VIII sem steig á land árið 1907 og Kristjáns X sem kom til Reykjavíkur árið 1921. Árið 1940 var fyllt yfir bryggjuna og hvarf hún þar með sjónum þar til núna.

Mynd 4. Bæjarbryggjan um 1937.
Mynd 5. Hernámslið þann 17 .maí 1940, eftir að hafist var handa við að fylla yfir Bæjarbryggjuna.

Torgið Steinbryggjan rammar inn sýnlegan hluta gömlu steinbryggjunar, við hönnun umhverfisins við bryggjuna var horft á  tengingu við sjó og bryggjulíf, torgstemningu og notagildi. Lögð var áhersla á gott gönguflæði allt í kringum bryggjuna og tengingar við aðliggjandi götur og torg. Staðurinn er einnig sérlega sólríkur og skjólgóður í góðum tengslum við bæjarlífið í kvosinni og á höfninni.

Nýja torgið Steinbryggjan tengir saman fortíð og nútíð, miðborg og höfn, eldri götur og nýjar. Steinbryggjan er í eigu Reykjavíkurborgar og býður íbúa og gesti velkomna án allra kvaða líkt og Bæjarbryggjan gerði á sínum tíma. Hönnun hins nýja torgs var í höndum Landmótunar og lýsing í höndum Mannvits. Unnið var með efni sem tengjast hafinu en setþrep og tröppur eru til að mynda úr bryggjutimbri og grágrýti notað í kanta og þrep. Sögu bryggjunnar verða gerð skil á handriði sem liggur meðfram tollhúsinu og verður sú vinna í höndum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Gleðileg jól

Við sendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum okkar jóla- og nýárskveðjur með þökk fyrir samstarf á liðnu ári.

Landmótun er fjölskylduvænn vinnustaður og lokar frá 21. desember til og með 1. janúar.

Hlökkum til samstarfs á komandi ári.

Starfsfólk Landmótunar.

Útgáfu ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð” eftir Einar E. Sæmundsen fagnað

Á dögunum var fagnað útgáfu bókarinnar ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð.  Íslensk garðsaga – Landslagsarkitektúr til gagns og prýði” eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og einn af stofnendum Landmótunar. Þetta glæsilega rit hefur verið hugarfóstur Einars í áraraðir og ljóst er að vandað hefur verið til verks þar sem bókin er hin glæsilegasta.

Þetta er einstakt yfirlitsverk um sögu og þróun íslenskrar garðhönnunar eða landslagsarkitektúrs, og er umhverfismótunin þar sett í samhengi við rætur íslenskrar menningar og tengd alþjóðlegum straumum og stefnum. Fjallað er um sögu garða á Íslandi frá elstu tímum en einkum um tímabilið frá þéttbýlismyndun þegar almenningsgarðar og útivistarsvæði urðu hluti af skipulagsgerðinni. Höfundur gengur um ýmsa kunna garða og miður þekkta, og fjallar sérstaklega um feril tveggja frumkvöðla í stétt landslagsarkitekta, þeirra Jóns H. Björnssonar (í Alaska) og Reynis Vilhjálmssonar.

Við óskum Einari innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

 

Höfundurinn Einar E. Sæmundsen og einn af frumkvöðlum landslagsarkitektúrs á Íslandi Reynir Vilhjálmsson við útgáfu bókarinnar.